Um CQ TF – Útgáfan

CQ TF er félagsrit ÍRA og hófst útgáfa þess árið 1964. Heitið “CQ TF” er fengið úr fjarskiptamáli radíóamatöra og er þýðing þess “Almennt kall til íslenskra amatörstöðva“. Ritið er umræðuvettvangur og upplýsingamiðill ÍRA ásamt vefsíðum félagsins og póstlista. CQ TF kom fyrst út árið 1964 eða 18 árum eftir stofnun félagsins (árið 1946).

Eins og sjá má í meðfylgjandi töflu, féll útgáfa blaðsins niður í nokkur ár, þ.e. 1972, 1974, 1980, 1984-1994 og eftir 3. tbl. 2013 til 2018. Blaðaútgáfa félagsins féll þó ekki alfarið niður sem slík öll þessi ár, þar sem sum ár var gefið út sérstakt fréttabréf fremur en formlegt félagsrit, þ.e. Fréttabréf Í.R.A. Fréttabréfið kom jafnvel út sum ár samhliða CQ TF og var hugmyndin, að fréttabréfið gæti t.d. verið hentugt útgáfuform fyrir fréttamiðlun (ath. þetta var fyrir tilkomu netsins). Útgáfuform var allt frá 4 síðum (A4 einblöðungar brotnir í tvennt).

Þá ber að nefna, að annað afbrigði fréttabréfsins kom út (a.m.k. árið 1993) undir nafninu CQ TF Fréttabréf. Hafa ber í huga, að framangreint fyrirkomulag var lengst af við lýði fyrir tilkomu netsins; en CQ TF var fyrst sett á netið í febrúar árið 2000.

Á tímabilinu 1964-1973 var CQ TF oftast í kringum 10 blaðsíður að stærð. Upp úr 1975 vex útgáfunni ásmegin og blaðsíðum fjölgar. Fyrsta “stóra” blaðið kom síðan út í mars 1976. Það var 42 blaðsíður. Sá blaðsíðufjöldi varð ekki “sleginn” út fyrr en með blaði í janúar 2009 sem var 52 bls. að stærð. Jafn stórt blað kom reyndar einnig út í október sama ár, og svo á ný í janúar 2010. “Minnsta” tölublað CQ TF kom út í febrúar árið 1970; það var 3 blaðsíður. Stöðugleiki ríkti í útgáfunni frá 1997 til 2006, en þá var blaðið (að mestu) gefið út í stærðinni A5 og blaðsíðufjöldi (oftast) 16 blaðsíður; á þessum árum komu út 5 tölublöð á ári. Frá upphafi hefur CQ TF oftast komið út í febrúar og desembermánuðum en sjaldnast í apríl, ágúst og nóvember.

Á tímabilinu 1964-2020 hafa 14 leyfishafar verið ritstjórar: Brynjólfur Jónsson (TF5BW/TF5B) í 10 ár; Jónas Bjarnason (TF3JB/TF2JB) í 6 ár; Kristinn Andersen (TF3KX) og Sigurbjörn Þór Bjarnason (TF3SB) í 6 ár; Páll Gröndal (TF3PI); Jón Þ. Jónsson (TF3JA) og Kristján Benediktsson (TF3KB), í 3 ár; Ágúst H. Bjarnason (TF3OM), Haraldur Þórðarson (TF3HP) og Sæmundur Þorsteinsson (TF3UA) í 2 ár; Birgir Baldursson (TF3BB), Guðmundur Löve (TF3GL) og Guðmundur Sveinsson (TF3SG) í 1 ár.

Langsamlega flest tölublöð komu út í tíð Brynjólfs Jónssonar (TF5BW/TF5B) eða 50 talsins. Næstur kemur TF3KX sem gaf út 18 tölublöð CQ TF.

CQ TF var gefið út á prentuðu formi til og með 2. tbl. 2012, en frá og með 3. tbl. 2012 einvörðungu á rafrænu formi á heimasíðu ÍRA. Eftir að útgáfa blaðisins var endurvakin eftir fimm ár, þann 29. apríl 2018, hefur hvert tölublað verið prentað í takmörkuðu upplagi (25 eintökum) til nota í þágu félagsins.

Ný stjórn ÍRA sem tók við eftir aðalfund 2018 samþykkti á sínum fyrsta fundi þann 20.3.2018, að ráðast í útgáfu blaðsins á ný. Það gekk eftir og kom 1. tbl. CQ TF út á stafrænu formi á heimasíðu félagsins þann 29. apríl 2018; 48 bls. að stærð. Þar með var brotið blað í útgáfusögu félagsins á ný þar sem CQ TF kom út eftir 5 ára hlé. Á starfsárinu 2018/19 komu alls út fjögur tölublöð.

Ný stjórn ÍRA sem tók við eftir aðalfund 2019, samþykkti á sínum fyrsta fundi þann 26.2.2019, að halda áfram útgáfu blaðsins á starfsárinu 2019/20 samkvæmt sömu stefnu og mörkuð var árið á undan, þ.e. heildarfjöldi tölublaða verðu alls fjögur og að jafnframt verði prentuð 25 eintök af hverju tölublaði í þágu félagsins. Á starfsárinu 2019/20 var staðið við útgáfuáætlun og komu út fjögur tölublöð.

Að lokum vil ég geta þess, að ef ekki væri fyrir frábært framlag Brynjólfs Jónssonar, TF5B, sem skannaði öll CQ TF blöð félagsins og fréttabréf, væri þessi útgáfa ekki samankomin á einn stað eins er á heimasíðu félagsins. Jafnframt ber að þakka Ölvir Sveinssyni, TF3WZ, sem hannaði og setti upp nýja heimasíðu félagsins og gerði þar með áframhaldandi starf Brynjólfs mögulegt.

Uppfærður texti 28. janúar 2020, Jónas Bjarnason, TF3JB, formaður ÍRA.

ÚTGÁFUÁR RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARMAÐUR KALLMERKI Tbl. alls
1964-1965 Páll Gröndal TF3PI 2
1966-1967 Ágúst H. Bjarnason TF3OM 2
1966-1967 Páll Gröndal TF3PI 2
1970 Birgir Baldursson (sk) TF3BB 3
1971 Sigurbjörn Bjarnason TF3SB 2
1973 Kristján Benediktsson TF3KB 1
1975 Jón Þóroddur Jónsson TF3JA 1
1975-1979 Jónas Bjarnason TF3JB 6
1981-1982 Kristján Benediktsson TF3KB 3
1983 Jónas Bjarnason TF3JB 1
1995 Kristinn Andersen TF3KX 1
1996-1997 Haraldur Þórðarson TF3HP 3
1997-2007 Brynjólfur Jónsson TF5BW 50
2007-2008 Jón Þóroddur Jónsson TF3JA 5
2009 Guðmundur Löve (afleysingar)
TF3GL 2
2009-2013
Kristinn Andersen (frá 2. tbl.) TF3KX 19
2012-2013 Sæmundur Þorsteinsson TF3UA 2
2013 Jónas Bjarnason TF3JB 1
2013 Guðmundur Sveinsson TF3SG 1
2018- Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB 8